Jöklamælingar á vísindadögum

Hjördís Skírnisdóttir skrifar

24/10/2018

Í morgun hófust vísindadagar í FAS en þá eru skólabækurnar settar til hliðar og nemendur fást við ýmis konar rannsóknir. Einn þeirra hópa sem er að störfum á vísindadögum fór í jöklamælingar við Heinabergsjökul í morgun.
Þegar lagt var af stað í morgunsárið var þoka og súld á Höfn en smám saman birti til og í lok ferðar var glaða sólskin og náttúran okkar skartaði sínu fegursta. Með í för voru einnig Snævarr og Lilja frá Náttúrustofu Suðausturlands. Snævarr er náttúrulandfræðingur og vinnur mikið við rannsóknir á jöklum. Það eru forréttindi fyrir nemendur í FAS að hafa aðgang að sérfræðingum Náttúrustofunnar sem eru tilbúnir að miðla af reynslu sinni og þekkingu.
Að þessu sinni hófst gönguferðin við gömlu brúna yfir Heinabergsvötn. Þaðan var haldið í áttina að Heinabergslóni þar sem jökullinn var mældur. Venjulega var jökulinn mældur á tveimur stöðum en vegna þess hve jökullinn hefur rýrnað og þynnst er einungis hægt að mæla á einum stað. Fyrir þá sem ekki vita þá gengur Heinabergsjökull fram í jökullón og því verður að beita hornafræði til að reikna út stöðu jökulsins hverju sinni. Að mælingum loknum var gengið á bílastæðið hjá Heinabergsjökli þar sem rútan beið eftir hópnum.
Á göngunni í dag voru alls kyns ummerki um jökulinn skoðuð og eins hvernig ytri öflin halda áfram að móta landið.
Í fyrramálið mun svo hópurinn reikna út stöðu jökulsins í ár og þá verður hægt að bera þá útreikninga saman við niðurstöður fyrri ára.
Í hádeginu á föstudag verður sýning í Nýheimum þar sem allir hópar sem voru að störfum á vísindadögum munu kynna verkefni sín. Allir eru velkomnir og hvattir til að mæta.

Deila

Aðrar fréttir sem þér gæti líkað við.

Öðruvísi og krefjandi leiklist

Öðruvísi og krefjandi leiklist

Núna er skólastarf vorannar komið á fullt skrið og margt spennandi í gangi. Á lista- og menningarsviði er Teresa M....

FAS keppir við FG á fimmtudag

FAS keppir við FG á fimmtudag

Uppfært: Vegna veðurs kemst tæknimaður frá RÚV ekki austur til okkar á Höfn. Þess vegna hefur keppninni sem vera átti...

Leiklist í FAS

Leiklist í FAS

Í gær fimmtudaginn 9. janúar var haldinn kynningarfundur vegna uppsetningar á leikverki á vorönn.  Líkt og undanfarin...