Dagana 11. – 14. september fór fram námskeiðið Klettaklifur 1 í fjallamennskunáminu. Námskeiðið er fjögurra daga grunnnámskeið í klettaklifri, með áherslu á að kenna nemendum að stunda klifur af öryggi.

Námskeiðið hófst í FAS á kynningu á klettaklifri og helsta búnaði sem nota þarf við klifur. Að því loknu færði hópurinn sig yfir í íþróttahúsið þar sem restin af deginum var nýtt í að læra að klifra og læra að nota línu til að tryggja klifurfélagann.

Á degi tvö var svo haldið á Hnappavelli í Öræfum þar sem lagt var stund á klifur í þrjá daga, auk þess sem nemendurnir lærðu að síga. Gist var í tjöldum undir Hnappavallahömrum með góðfúslegu leyfi landeigenda og Klifurfélags Reykjavíkur sem hefur komið upp grunnaðstöðu fyrir klifrara á svæðinu.

Hnappavallahamrar er stærsta klettaklifursvæði landsins og hafa sjálfboðaliðar úr Klifurfélagi Reykjavíkur og Íslenska Alpaklúbbnum boltað ankeri og festur í bergið fyrir yfir 100 mismunandi leiðir.  Það eru forréttindi fyrir okkur í FAS að hafa aðgang að svæði eins og Hnappavallahömrum í einungis um 100 km fjarlægð frá skólanum.

Veður var með besta móti í ferðinni, að mestu leyti sólskin og lítill vindur, sem verður að teljast nokkuð gott um miðjan september.