Í þessari viku fer fram námskeiðið Gönguferð 1 í fjallamennskunáminu.  Um hádegisbil á þriðjudag lögðu fjallamennskunemar ásamt tveimur kennurum upp í þriggja daga gönguferð eftir að hafa varið mánudegi og þriðjudagsmorgni í að undirbúa veturinn og læra undirstöðuatriðin í ferðamennsku til fjalla og rötun með áttavita og korti.
Gengið var inn Laxárdal í Nesjum og um Endalausadal yfir í Lón. Hópurinn ferðaðist með allt sem til þurfti á bakinu, en áherslan í þessari ferð er að ná tökum á rötun með notkun korts og áttavita sem og að ferðast með allt á bakinu og gista í tjöldum.
Hópurinn gisti eina nótt í Laxárdal og eina nótt í Endalausadal. Ferðin gekk mjög vel, enda veður gott þó kalt hafi verið á nóttinni eins og búast má við þegar nær dregur vetri.