Auðbjörn og Oddleifur létu sig ekki vanta í morgunmatinn.

Á síðustu önn var ákveðið að blása til sameiginlegra stunda allra íbúa í Nýheimum. Stundum er sagt að besta leiðin til að ná til fólks sé í gegnum magann og því var ákveðið að íbúar hússins myndu skiptast á að bjóða upp á kræsingar. Alls voru fjórir slíkir samfundir á síðustu önn þar sem alls kyns gómsætir réttir voru bornir á borð.
Sameiginlegir kaffitímar á Nýtorgi mæltust svo vel fyrir að það var ákveðið að halda þeim áfram á þessari önn. Starfsfólk Menningarmiðstöðvar og utangarðsfólk riðu á vaðið og buðu upp á enskan morgunverð af bestu gerð. En til utangarðsfólks teljast þeir sem eiga í miklu samstarfi við Nýheima eins og t.d. starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs og Vöruhússins.
Það var vel mætt á Nýtorg í morgun og matnum voru gerð góð skil og því ættu allir að vera tilbúnir til að takast á við verkefni dagsins.