Eins og mörgum er kunnugt um hefur verið að fækka í árgöngum í sveitarfélaginu. Til að geta haldið uppi fjölbreyttu námsframboði hefur FAS brugðið á það ráð að endurskipuleggja og bæta fjarnámið með það í huga að fjölga nemendum.
Á þessari önn eru um 90 nemendur sem stunda fjarnám í FAS og er það umtalsverð fjölgun frá síðustu önn. Um tuttugu þessara nemenda koma frá Fjarmenntaskólanum en það er samstarfsvettvangur þrettán framhaldsskóla á landsbyggðinni. Margir nemendur eru í fleiri en einum áfanga og núna hafa 14 nemendur í hyggju að ljúka stúdentsprófi frá FAS í fjarnámi. Í velflestum áföngum á stúdentsbrautum eru 5 – 10 fjarnemendur og í sumum áföngum eru fleiri í fjarnámi en mæta í stofu.
Það virðist skipta marga nemendur máli að FAS hefur tekið upp breytt fyrirkomulag á lokamati sem er samtal nemenda og kennara í stað lokaprófs. Það hefur oft komið fram að margir eru haldnir prófkvíða og hafa ekki treyst sér í nám og eru tilbúnir að prófa nýtt fyrirkomulag.