Útivist á góðum degi.

Í FAS er félagslífið smám saman að komast á skrið eftir sumarið. Sex klúbbar eru starfræktir á önninni, en það eru: málfundafélagið, viðburðaklúbbur, útivistar – og veiðiklúbbur, kvikmyndaklúbbur, ljósmyndaklúbbur og lyftingaklúbbur. Margir af klúbbunum hafa verið fastir liðir í skólastarfinu í gegnum árin, en nemendum gefst alltaf tækifæri á að stofna sinn eigin klúbb eftir áhuga. Nemendaráð samanstendur síðan af sex formönnum klúbbanna, ásamt forsetum nemendafélagsins.

Það helsta sem hefur verið á döfinni fram af þessu er hið árlega Gettu betur forpróf, sem ákvarðar þá sem keppa fyrir hönd skólans. Einnig hefur mælsku og rökræðukepnni MORFÍs verið kynnt auk þess sem starf klúbbanna á önninni hefur verið mótað.

Fyrsti viðburður nemendaráðsins mun svo líta dagsins ljós í næstu viku, þar sem grillveisla og brenna verður haldin fyrir nemendur skólans. Við viljum hvetja alla til að taka þátt í félagslífinu því án þátttöku verður ekkert félagslíf.

Arndís Ósk og Sóley Lóa, forsetar í FAS