Samstarfsverkefni

Samstarfsverkefni

Í Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) er lögð mikil áhersla á samskipti við aðila utan skólans, bæði innanlands og erlendis.

FAS er hluti af Nýheimum þar sem áhersla er lögð á menntun, menningu, nýsköpun og rannsóknir. Auk skólans er í Nýheimum, Hornafjarðarsöfn, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði, Náttúrustofa Suðausturlands, Fræðsluskrifstofa Hornafjarðar, Fræðslunet – símenntun á Suðurlandi Háskólafélag Suðurlands, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Ríki Vatnajökuls og Vatnajökulsþjóðgarður. Í Nýheimum aðstaða til fjarnáms fyrir nemendur á háskólastigi og í fullorðinsfræðslu. Þá er í húsinu aðstaða til funda og ráðstefnuhalds.

Allt frá stofnun árið1987 hefur FAS starfað í nánu samstarfi við Menntaskólann á Egilsstöðum og Verkmenntaskóla Austurlands á Neskaupsstað. Nú hefur verið komið á samstarfi framhaldsskóla á landsbyggðinni undir heitinu Fjarmenntaskólinn. Innan Fjarmenntaskólans er samstarf um starfsnám, miðlun á námi og kennslu á milli skólanna. Einnig er Fjarmenntaskólinn samstarfsvettvangur fyrir aðildarskólana. Eins og nafnið bendir til er áherslan lögð á fjarnám.

FAS hefur um langt árabil átt samstarf við Grunnskóla Hornafjarðar. Þar hefur duglegum nemendum gefist kostur á taka áfanga á framhaldsskólastigi samhliða grunnskólanáminu og um leið flýta fyrir sér í námi.

Skólinn er í samstarfi við Fræðslunet – símenntun á Suðurlandi Samstarfið er fyrst og fremst um menntun fullorðinna með litla formlega menntun og þróun náms á framhaldsskólastigi.

FAS er í samstarfi við Tækniskólann um nám í vélstjórn. Námið er samkvæmt alþjóðlegu vottunarkerfi Tækniskólans. Kennslan fer fram í FAS og lotum í Tækniskólanum en útskrift er á ábyrgð beggja skólanna.

Í gildi er samningur milli Fuglaathugarstöðvar Suðausturlands og FAS. Markmið samningsins er að efla náttúruskoðun við FAS, auka rannsóknir á fuglum og efla áhugann á þeim.

FAS og Náttúrustofa Suðausturlands vinna saman að svokölluðum vöktunarverkefnum en þar er fylgst reglulega með gróðurbreytingum á Skeiðarársandi, breytingum á Heinabergsjökli og svo álftum á Lónsfirði.

Skólinn á í nánu samstarfi við Sveitarfélagið Hornafjörð um félagslíf ungmenna. Síðustu misseri hefur sérstaklega verið unnið að eflingu Vöruhúss sem er miðstöð skapandi greina í sveitarfélaginu. Nýjasta afurð þess samstarfs er tilkoma Fablab smiðju Hornafjarðar.

Mikið og gott samstarf er á milli Sveitarfélagsins Hornafjarðar , Hornafjarðarsafna og skólans. Meðal annars má nefna að skólinn hefur aðgang bókasafninu í Nýheimum. Einnig hefur sveitarfélagið verið skólanum innan handar við móttöku á gestum, innlendum sem erlendum.

Skólinn reynir að bjóða reglulega upp á erlend samstarfverkefni þar sem nemendum gefst kostur á að taka þátt í spennandi verkefnum og ferðast til samstarfslanda. Ætla má að í gegnum tíðina hafi á annað hundrað nemenda tekið þátt í slíkum verkefnum. Nýjasta samstarfsverkefnið í FAS er Erasmus + verkefni og heitir Your Health is your Wealth. Samstarfsskólinn er í borginni Wroclaw í Póllandi og heitir Liceum Ogólnokształcące nr VII (LO nr. VII). Þetta er tveggja ára verkefni og lýkur í ágúst 2017. Í verkefninu verður skoðað hvað hver einstaklingur getur gert til að bæta árangur sinn í lífi og starfi. Gert er ráð fyrir gagnkvæmum heimsóknum nemenda bæði árin.

Living in a Changing Globe er heiti á Comeíusarverkefni sem var í gangi milli Vajda János Gimnázium í Ungverjalandi og FAS. Það var tveggja ára verkefni sem lauk 2015. Þar var fjallað um loftslagsbreytingar í löndunum tveimur. Þetta var í annað skipti sem skólinn vinnur með skóla í Ungverjalandi.

Skólaárin 2013 – 2015 var enn og aftur í gangi samstarfsverkefni við Max-Planck-Gymansium í Tríer í Þýskalandi. Að þessu sinni voru tveir íslenskir samstarfsskólar; Menntaskólinn á Egilsstöðum og FAS. Verkefnið kallast Nachhaltigkeit im Nationalpark og fjallar um sjálfbærni í þjóðgörðum. Nemendur unnu meðal annars að snjallsímaleiðsögn í Vatnajökulsþjóðgarði. Vinir Vatnajökuls styrktu líka verkefnið þannig að hægt var að kaupa búnað til að setja leiðsögnina í snjallsíma. Á næstunni ætti leiðsögnin að verða aðgengileg almenningi.

Skólaárið 2011 – 2012 var í gangi samstarfsverkefni á vegum Nordplus Junior við skóla í Siaulai í Litháen. Það bar heitið Alternative Energy Resources og fjallaði fyrst og fremst um vistvæna og endurnýjanlega orkugjafa. Þetta verkefni hlaut eTwinning verðlaun í flokki framhaldsskóla árið 2011 – 2012 á árlegri ráðstefnu um rafrænt samstarf á milli skóla.

Haustið 2008 komst á samstarf við skóla í Debica í Póllandi og í kjölfarið á því varð til  ICEPO verkefnið þar sem m.a. var verið að fjalla um ólíka menningarheima. ICEPO verkefnið var valið sem besta eTwinning verkefnið á Íslandi haustið 2010 í flokki framhaldsskóla og hlaut einnig umfjöllun á lokaráðstefnu í Varsjá í mars 2012.

Verkefnið Weltklimakonflikt als Energieproblem var nemendaskiptaverkefni við Max-Planck-Gymansium í Tríer í Þýskalandi. Þetta var samstarfsverkefni framhaldsskólanna þriggja á Austurlandi við skólann í Tríer. Verkefnið hófst 2009 og lauk vorið 2011.

Á vorönn 2007 hófst samstarf við landbúnaðar- og garðyrkjuskóla bænum Jämsä í Finnlandi. Verkefnið tengist frumkvæði og nýsköpun og nefnist Common nordic. Sótt var um styrk á vegum Nordplus áætlunarinnar til gagnkvæmra heimsókna á skólaárinu 2007 – 2008. Nemendur úr FAS fóru til Jämsä í september 2007 og finnsku nemendurnir komu til Íslands í mars 2008. Hér er að finna nánari upplýsingar um Common nordic.

Á vorönn 2005 hóf skólinn samstarf við Kölscey Ferenc Gimnázium í Zalaegerszeg í Ungverjalandi undir merkjum eTwinning áætlunarinnar. Verkefnið nefnist Water and Fire. Skólaárið 2005 – 2006 hélt samvinna á milli þessara skóla áfram en að þessu sinni var unnið eftir Comeníusar áætluninni um tungumálaverkefni og nemendaskipti.

Skólaárið 2002 – 2003 var í gangi tungumálaverkefni og nemendaskipti á vegum Comeníusar áætlunarinnar. Þá var samstarf á milli FAS og Sint Gabriël college í Brussel í Belgíu. Verkefnið bar heitið Breaking the ice with ICT.

Haustið 2003 var FAS boðin þátttaka í OILSIM tölvuleiknum. Leikurinn er námsleikur sem á rætur sínar að rekja til Færeyja. Þátttakendur í leiknum spila á netinu og geta jafnvel nokkur hundruð manns í mismunandi löndum spilað leikinn samtímis. Aðalmarkmið er að skoða jarðlög í þeim tilgangi að finna olíu. Því næst þarf að huga að því hvernig hægt sé að nálgast olíuna og hversu miklu til þurfi að kosta. FAS hefur tekið þátt í leiknum á hverju ári. Haustið 2008 var í fyrsta skipti haldin landskeppni í OILSIM á Íslandi. Þar varð lið frá FAS í fyrsta sæti og ávann sér þar með rétt til þátttöku á OILSIM international sem var haldið í London í janúar 2009. Liðið Puulsa frá FAS vann landskeppnina haustið 2009 og vann einnig alþjóðlegu keppnina í London í janúar 2010. Enn á ný vann lið frá FAS landskeppnina haustið 2010 og hafnaði í öðru sæti í alþjóðakeppninni í London í janúar síðastliðnum. Haustið 2011 vann lið frá FAS landskeppnina fjórða árið í röð. Það voru Senjoríturnar frá FAS sem tóku þátt í lokakeppni OILSIM í London í lok janúar 2012.

Haustið 2006 tók FAS einnig þátt í tölvuleik hjá Færeyingunum sem nefnist STARTSIM. Þetta er líkt og OILSIM námsleikur þar sem fjallað er um stofnun og rekstur fyrirtækja. Tæplega tugur nemenda í FAS tók þátt í leiknum.

 

Uppfært í október 2015.